Fyrir nokkru stóð ég í flutningum og rakst á gamla minnisbók frá því að ég fór á námskeið í markmiðasetningu fyrir all mörgum árum. Á því námskeiði fékk maður það verkefni að setja sér markmið fram í tímann, 3 mánði, 3 ár, 5 ár og 10 ár. Það er auðvitað margsannað að líkurnar á því að markmið náist aukast verulega ef maður skrifar þau niður en samt er alltaf jafn skemmtilegt að sjá það raungerast í eigin lífi. Þarna hafði ég nefnt staði sem mig langaði að heimsækja, áfanga sem ég vildi ná og persónuleg atriði sem skiptu mig máli sem hafa nú orðið að veruleika án þess í raun að ég væri meðvituð um það. Var búin að steingleyma því að ég hefði skrifað þetta niður, en greinilega hafði þetta samt kraumað í undirmeðvitundinni.
Framtíðarsýn og markmið eru auðvitað náskyld því að framtíðarsýnin er í raun ávinningurinn af því að hafa náð markmiðunum sínum. Fyrsta skefið er því sjá fyrir sér hvað maður vill að framtíðin beri í skauti sér, hvaða tilgang við viljum hafa og hvað raunverulega skiptir okkur máli. Sýnin hjálpar okkur þá að taka ákvarðanir og verður einskonar áttaviti þegar við stöndum frammi fyrir spurningum um í hvaða átt við ættum að fara.
Það er ekki óalgengt að framtíðarsýn innihaldi lýsingu á tilgangi þínum og gildum og langtímamarkmiðum og ætti að koma inn á þætti eins sambönd, persónulegan vöxt, andlega og líkamlega heilsu, jafnvægi vinnu og einkalífs, framlag til samfélagsins, viðhorf og annað sem skiptir þig máli.
Þegar framtíðarsýnin er skrifuð er mikilvægt að hún sé orðuð þannig að hún veiti þér innblástur til að hún rætist. Þ.e. að velja orð sem eru kröftug og jákvæð. Einnig mælum við með að skrifa hana í nútíð eins og hún sé búin að gerast. Til þess að koma sér af stað er gott að byrja á orðunum “Ég er….”
Hér fyrir neðan er dæmi sem hægt er að styðjast við og vonum að þú skrifir niður þína framtíðarsýn og að hún verði þér innblástur til lifa lífinu þínu af ásetningi:
Ég er jákvæð og sýni seiglu til að takast á við áskoranir. Ég læri af lífsreynslu og áföllum sem hafa aðeins gert mig sterkari og ég nálgast lífið af þakklæti.Ég er sátt við áhrifin sem ég hef á umhverfi mitt og hvet aðra til að elta drauma sína og hef jákvæð áhrif með því að vera góð fyrirmynd á sem flestum sviðum.Ég er heilbrigð sál í haustum líkama og legg áherslu á að vera úti að leika mér og hafa gaman í góðum félagskap.
Gefðu þér tíma til að skrifa þína framtíðarsýn og auktu líkurnar á að hún rætist. Gangi þér vel.