Er afrekshugafar almennt að finna í fyrirtækjum?

Er afrekshugafar almennt að finna í fyrirtækjum?

Í samtali mínu við þjálfara í Bestu deild karla um daginn kom fram að dæmigerður ungur landliðsmaður væri búinn með ca. 3000 fótboltaæfingar á lífstíðinni og þeir sem eldri eru tvöfalt fleiri. Á nánast hverri æfingu er æfð tækni sb. sendingar, knattrak, snúningar, skallar, skot osfrv. sem þýðir að hver fótboltamaður hefur æft sömu atriðin svo skipti hundruðum og jafnvel þúsundum.

Í framhaldi af samtalinu fór ég að velta fyrir mér hvað fólk í viðskiptum gerir til að vera í fremstu röð. Ég rifjaði upp samtal við söluráðgjafa sem sagðir mér að hann væri „búinn með Dale Carnegie“. Hann hafði komið í söluþjálfun sem var einu sinni í viku í sex vikur 3,5 klst í senn eða samtals 21 klst. og það fyrir 7 árum síðan. Hann var samt „búinn með Dale Carnegie“.

Fólk í viðskiptum hefur gjarnan sótt innblástur til íþrótta og árið 2016 var t.d. haldin ráðstefna í Hörpu þar sem meðal annars voru David Moyes, Kevin Keegan, Ruud Gullit, Martin O’Neill og Chris Coleman. Ráðstefnan bar heitið „Að byggja vinningslið – hvað getur atvinnulífið lært af boltanum? Þar bar margt á góma og mikið talað um strategíu. Minna var rætt um mikilvægi þess að æfa sömu hlutina aftur og aftur þar til fullkomlegt vald fengist á leikkerfum viðskiptalífsins.

Það er áhugavert að hugsa til þess að þegar íþróttafólk eflir sína færni þá „fer það á æfingu“ en þegar fólk í viðskiptum eflir færni þá heitir það endurmenntun. Orðið endurmenntun er einhvern veginn mun gildishlaðnara en hugtakið „að fara á æfingu“.

Ég velti fyrir mér hvort það væri skrýtið að söluráðgjafi í fyrirtæki myndi fara í söluþjálfun tvisvar á ári og æfði vikulega þess á milli leikkerfin sem þjálfunin inniheldur? Eða eru þessar endalausu landsliðsæfingar kannski algjörlega óþarfar þar sem landsliðið er búið að fara á æfingu og veit alveg hvað það á að gera.

Ef fyrirtæki ætla að koma sínu fólki í landsliðsform þurfum við að hætta að hugsa um árlega endurmenntun og líta á stjórnendur sem þjálfara sem bjóða upp á reglulegar æfingar innanhúss og utan.