Ríkir farsæld á þínum vinnustað?

Helstu tímarit á sviði stjórnunar og mannauðsmála fjalla þessa dagana mikið um farsæld á vinnustöðum (e. Wellness and or, Well-being) sem er eðlilegt í kjölfar krefjandi tímabils undanfarinna ára.

Hér fyrir neðan eru 5 atriði sem þú getur notað til að átta þig betur á hvort farsæld ríki í þínum vinnustað:

  1. Sambönd. Að samband við samstarfsfólk og yfirmenn á vinnustaðnum einkennist af gagnkvæmu trausti og virðingu og andrúmsloftið sé óþvingað. Að þú getir deilt áhyggjum þínum og talað opið um áskoranir og hugmyndir.
  2. Heilsa. Á vinnustaðnum sé hugað að álagi og jafnvægi vinnu og einkalífs. Að samskipti séu heilbrigð á milli allra starfsmanna og stjórnenda. Að hvatt sé til líkamlegrar hreyfingar t.d. með íþróttastyrkjum eða atburðum á vegum fyrirtækisins. Hollusta einkenni þá fæðu sem í boði er á vegum fyrirtækisins.
  3. Menntun. Að fyrirtækið/stofnunin bjóði upp á og hvetji til sí-menntunar og ný tækifæri bjóðist þeim sem það þiggja. Fyrirtækjamenningin sé þannig að nýrri starfsmenn eigi auðvelt með að leita til reyndari starfsmanna og að opinber menntastefna liggi fyrir.
  4. Félagsleg tengsl. Að starfsfólk myndi tengsl sem ná út fyrir vinnustaðinn og hafi einkenni vinasambanda. Stjórnendur geri sér grein fyrir mikilvægi þessa og stuðli að samkomum og atburðum til að efla tengslin. Starfsfólk upplifi sig sem hluta af sterkri liðsheild.
  5. Vinnuumhverfið. Vinnustaðurinn bjóði upp á gott umhverfi þar sem hita- og birtustig sé ákjósanlegt og aðbúnaður góður. Tæki og tól standist kröfur um gæði og öryggi.

Það er allra hagur að hugað sé að farsæld á vinnustöðum og hver og einn starfsmaður getur gert sitt til að stuðla að ofantöldum atriðum. Ábyrgðin er allra.