Áramótaheitin að vori

Með vorinu er ekki ólíklegt að við séum búin að gleyma stórum hluta af áramótaheitunum okkar. Tja, kannski ekki gleyma þeim en fókusinn er horfinn og góður ásetningur fokin burt með einhverri vetrarlægðinni. 

Í fyrra setti ég mér það markmið að fara 50 ferðir uppá Úlfarsfellið. Í fyrstu var þetta eitthvað sem ég geymdi með sjálfri mér, feimin við að segja þetta upphátt. Óviss um að markmiðið næðist og því hrædd um að segja öðrum frá þessu. Ég hafði hvata til að halda mér í gönguformi, þar sem ég hafði nýlega hafið störf sem leiðsögumaður og því þótti mér mikilvægt að vera í standi til að leiða aðra á fjöll. Svo er Úlfarsfellið sjálft í göngufjarlægð frá heimili mínu. Þess vegna er það frábært æfingasvæði. Vandinn er að mér þótti Úlfarsfellið bara alveg ótrúlega óspennandi göngusvæði. Auk þess sem fjölbreytni er það sem keyrir mig áfram. Þess vegna vissi ég að þessi göngumarkmið var meiri áskorun fyrir andlegt úthald mitt en líkamlegt úthald.

Árið byrjaði vel, ég rölti reglulega uppá fellið og tók af því mynd til sönnunar. Svo komst ég að því að ein göngukona sem ég þekki var með sama markmið og það var hvetjandi að fylgjast með henni. Stundum hljóp í mig kapp og vilji til að vera búin að „klukka útsýnispallinn“ oftar en hún. Sko, þetta var meiri samstaða en samkeppni. Ég var farin að segja frá markmiðinu upphátt sem gerið skuldbindinguna raunverulegri.

Svo líður á árið og í eitt skiptið hitti ég þar eina sem sagðist hafa klárað 50 ferðir í apríl og því hafi hún ákveðið að breyta markmiðinu í 100 ferðir á árinu! Allt í einu var mín skuldbinding fremur þunnur þrettándi miðað við hennar. Svo kom að því að  gönguvinkonan fór vel framúr mér í ferðum. Ég samgladdist í henni innilega en samtímis fannst mér þetta markmið vera orðin óþægilega brött brekka.

Í desember var fókusinn skerptur, skórnir reimdir og þykka dúnúlpan tekin fram því kuldatíðin var þó nokkur í lok ársins. Þegar ég fór 49. ferðina upp á útsýnispallinn á Úllanum, dáðist að útsýninu, smellti af mér sjálfu og klappaði sjálfri mér á bakið,  þá sá ég að starfsmaður frá Vodafone var að vinna uppí mastrinu sem stendur þar og skagar langt upp í himinn. Þetta var áminning um að „hæsti punkturinn“ á Úlfarsfelli var í raun ekki útsýnispallurinn heldur óaðgengilegur toppur á útvarpsmastri. 

Skyndilega var þetta markmið mitt orðið svo lúið og ómerkilegt. Bara 50 ferðir í stað 65 eða 100 ferðir, hæsti punkturinn var í raun ekki lengur hæsti punkturinn. Efasemdaraddirnar í hausnum hvísluðu að mér að þetta væri hvorttveggja metnaðarleysi og aumingjaskapur í mér. Hvaða rétt hefði ég að verða stolt af þessu markmiði?

Í stað þess að láta þennan neikvæðnispíral fara úr böndunum ákvað ég að umorða þetta í huga mér. Ég skuldbatt mig til að fara í sama göngutúrinn 50 sinnum á 365 dögum, ég upplifði allar árstíðirnar á sama útsýnispalli. Stundum fór ég ein og stundum með félagsskap. Stundum var þetta mökkerfitt og stundum leiftrandi létt. Í stað þess að gleyma markmiðinu um miðjan febrúar þá hélt ég áfram og stóð við mína skuldbindingu. Það er ekki alltaf sem það hefur tekist hjá mér. Af því má ég vera stolt! 

Leyfið ykkur að þykja vænt um markmiðin ykkar, jafnvel þó að aðrir setji sér „stærra“ markmið. Því með því að næra markmiðið og minna sig á hversvegna það skiptir mann máli er svo miklu líklegra að við náum því.