Útrunnin kennitala eða úreltir fordómar?

Dale Carnegie

Þú hefur trúlega heyrt um ,,útrunnu kennitölurnar“. Hugmyndina um að eftir fimmtugt sé fólk að nálgast endastöð starfsferilsins og ekki sé hægt að ætlast til að það standi sig eins vel og áður. Ef stjórnendur hafa val á milli þess að ráða eldri einstakling sem þarf t.d. að þjálfa í stafrænum lausnum eða ungan einstakling með góðan skilning á nútímatækni er valið auðvelt. Eða hvað?

Eftir 25 ár á vinnumarkaði og þó að ég verði fimmtugur á næsta ári, líður mér eins og ég eigi töluvert inni. Ég hef brennandi áhuga, er við góða heilsu, hef stórt tengslanet og reynslan hjálpar mér að taka góðar ákvarðanir og byggja upp sterk sambönd við fólk. Undanfarin 10 ár hef ég starfað sem ráðgjafi hjá Dale Carnegie og hjálpað fyrirtækjum að viðhalda samkeppnishæfni sinni með því að fá það besta úr starfsfólki sínu. Ég hef kynnst miklum fjölda hæfileikaríkra og hvetjandi stjórnenda og starfsmanna. Ég hef líka hitt þá sem skortir neistann og trúið mér, þeir eru á öllum aldri. Mín upplifun er sú að alltof margir sem komnir eru á sextugsaldur fá ekki tækifæri til að leggja sitt af mörkum. Ég hef hitt einstaklinga sem finnst þeir vera í fullu fjöri og með áratuga reynslu sem engu að síður eru færðir til í starfi eða ýtt hægt og rólega út. Þarna fer mikil hæfni og reynsla forgörðum og allir tapa.

Norska loftvogin

Á ráðstefnu Dale Carnegie í Mílanó nú í október áttum við samtal við norska kollega okkar sem bentu okkur á þarlenda rannsókn (Norsk seniorpolitisk barometer) sem varpar ljósi á viðhorf stjórnenda til eldra fólks í atvinnulífinu. Svo virðist sem stjórnendur þar horfi að meðaltali á 56 ár sem viðmið þegar þeir skilgreina starfsmann sem „eldri“ sem er jákvæð þróun frá 52 árum sem var meðaltalið þegar könnunin var gerð fyrst árið 2003. Önnur jákvæð niðurstaða er að 82% svöruðu því að þeir væru sammála að fullu eða að hluta til fullyrðingunni um að „starfsmenn eldri en 60 ára skili að minnsta kosti jafn mikilum afköstum og fólk yngra en 60 ára“.

Þegar rýnt er betur í könnunina kemur svo þversögnin í ljós. Allt að 97% stjórnenda segjast vilja ráða „reynda starfsmenn“, 84% segja að þeir gætu hugsað sér „yngri starfsmenn“ en aðeins 56% segjast vilja ráða „eldri starfsmenn“.

Hvar eru allir þessir ungu starfsmenn með langa reynslu? Munum að 82% stjórnenda telja að fólk yfir 60 ára afkasti jafn miklu og það yngra. Þá liggur sú spurning í loftinu hvers vegna stjórnendur eru tregir að ráða eldra fólk?

Ein af ástæðunum kann að virðast augljós sé rýnt í rannsóknina. Stór hluti stjórnenda er sammála um að umsækjandi um starf ætti að eiga 10 ár eða lengur eftir af starfsferli sínum til að koma til greina. Þetta er sannarlega sjónarmið. En hversu margir ungir starfsmenn í dag kjósa að vera í sama fyrirtæki í yfir 10 ár?

Hvað ættu stjórnendur að hugsa um?

Skoðun mín er sú að eldri starfsmenn hafa oft sterk tengsl við fyrirtæki sitt og verkefni. Með langri starfsreynslu hafa þeir byggt upp verðmæt tengslanet og sambönd, sem fyrirtækið getur haft mikið gagn af. Margir eru sveigjanlegir þegar kemur að vinnutíma og vinnubrögðum.
Ég leyfi mér að fullyrða að framfarir hafi orðið í móttöku nýrra starfsmanna sl. ár og þegar ungt fólk hefur störf standa mörg fyrirtæki vel að innleiðingunni (Onboarding). Að sama skapi ættu stjórnendur að huga að símenntun þeirra sem eldri eru. Í dag eru um 3,5% af þeim sem sækja námskeið Dale Carnegie eldri en 56 ára. Þetta hlutfall var 7% árið 2015 og hefur farið niður á hverju ári. Hver er ástæða þessarar þróunar?

Framtíðin

Þessum skrifum er ekki beint gegn stjórnendum eða ungu fólki og alls ekki tilraun til að sannfæra þig um að eldra fólk sé betra en það yngra. Fáir efast um ágæti næstu kynslóðar, menntun hennar og færni. Hugmyndin er frekar sú að vekja upp umræðu í þjóðfélaginu um heppilega samsetningu vinnumarkaðarins. Til að vera samkeppnishæf þurfa fyrirtæki á öllum sínum auðlindum að halda, þar með talið ólíkri samsetningu starfsmanna, reynslu og færni.

Einn af mínu bestu vinum er 67 ára eða tæpum 20 árum eldri en ég. Hann passar vel inn í minn vinahóp enda sá eini sem nú þegar er kominn með iphone 11 pro, er sá eini sem á dróna og er virkastur á samfélagsmiðlum. Hvort er meira virði viðhorfið hans eða kennitalan?

Þannig hvet ég þá sem ætla að ráða nýjan starfsmann á næstunni að huga fyrst og fremst að sérþekkingu hans, ástríðu og viðhorfi frekar en kennitölunni hans.

Heimildir: Norsk stjórnmálaleg barómeter 2016