Er hvíld samasem leti?

Haustlægð gengur yfir landið og ég kem mér fyrir í sófanum með kaffibolla. Nýt þess að vera ein á heimilinu – það er kærkomin þögn. Eftir skamma stund koma hugsanirnar á færibandi; þarf að setja í þvottavélina, tölvupóstar sem þarf að senda, mylsna á gólfinu sem gott væri að sópa upp, vinir sem mætti hafa samband við og samviskubit yfir að sinna ekki hreyfingu dagsins. Fljótlega fylgja í kjölfarið hugsanir um leti og aumingjaskap. Þegar ég skrolla svo í gegnum samfélagsmiðlana fæst staðfesting! Hinir lifa gordjöss lífi á meðan ég ligg í sófanum í leti.

Hvaðan kemur þessi tilhneiging okkar til að kalla okkur sjálf löt þegar við erum að hvíla okkur? Hvíldin er kærkomin eftir langan vinnudag, útréttingar, símtöl og hittinga. Oft vitum við það á sama tíma og innra með okkur er rödd sem hvetur okkur áfram, segir að við getum nýtt tímann betur, afgreitt fleiri hluti, Marie Kondo-að heimilið enn betur, skellt okkur í MBA nám, skráð okkur í Járnkarl á sama tíma og kulnun bíður á stigaganginum tilbúin að banka á dyrnar.
Nýlega varð ég vitni að samtali tveggja ofur-kvenna í heita pottinum þar sem þær voru að bera saman bækur sínar eftir sumarfrí frá reglubundinni hreyfingu. Önnur segir „Æi, ég er búin að vera löt í sumar. Var eiginlega bara að ferðast með fjölskyldunni“. Hin segir þá ; „ Svipað hjá mér, ég valdi að kúpla mig út eftir veturinn og njóta sumarsins í stað þess að segja við sjálfa mig að ég væri löt“.

Þarna kviknaði ljós! Akkúrat! Það má velja að kúpla sig út. Það má hægja á sér. Að hvíla sig er ekki leti. Eða eins og það er orðað einhversstaðar; „Hvíldu þig áður en þú þreytist“. Þetta er svo einfalt en samt svo erfitt að fylgja eftir.
Andvarpaði, horfði á rigninguna úti og dró yfir mig teppi. Ákvað að hvíla mig, því það má!