Þú átt meira inni

Eg get ekki

Eftir að hafa þjálfað meira en 30.000 Íslendinga getum við sem störfum hjá Dale Carnegie sagt með fullri vissu að hver og einn eigi meira inni. Eftir aðeins nokkra vikna þjálfun tala flestir um hvað þeir hafi komið sjálfum sér og öðrum mikið á óvart. Hvernig má þetta vera? Hvers vegna verður fólk hissa á sjálfu sér þegar það nær árangri. Hvaðan kom viðmiðið í upphafi? Er umhverfið að ramma það inn eða gerir fólk það sjálft?

35% starfsmanna eru virkir

Frá árinu 2012 hefur MMR mælt virkni starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði. Nýjasta mælingin (2018) sýnir að aðeins 35% starfsmanna teljast virkir. Þeir sýna frumkvæði, leggja meira á sig en ætlast er til og draga þannig vagninn. Þá kemur fram að 21% eru óvirkir. Þeir hugsa oft um að hætta í núverandi starfi, eru neikvæðir gagnvart vinnustaðnum og upplifa sig ekki sem hluta af fyrirtækinu. Hin 44% gera það sem ætlast er af þeim en ekkert umfram það. Samkvæmt rannsóknum okkar eru það einkum þrír þættir sem hafa mest áhrif á virkni; Stolt af fyrirtækinu, trú á yfirstjórn og ánægja með næsta yfirmann, sem vegur þyngst.

Ábyrgð stjórnenda er mikil en ekki síður ábyrgð hvers og eins. Við berum ábyrgð á eigin hugarfari og velgengni. Við eigum ekki að sætta okkur við umhverfi þar sem styrkleikar okkar fá sín ekki notið. Við eigum að taka frumkvæði.

Allir, Einhver, Hver sem er og Enginn

Til er saga af fjórum manneskjum sem hétu; Allir, Einhver, Hver sem er og Enginn. Það var mikilvægt verk sem þurfti að vinna og Allir voru vissir um að Einhver myndi gera það. Hver sem er hefði getað gert það, en Enginn gerði það. Einhver reiddist vegna þess að þetta var starf Allra. Allir héldu að Hver sem er gæti gert það, en Enginn gerði sér grein fyrir því að Allir myndu ekki gera það. Það endaði með því að Allir skelltu skuldinni á Einhvern þegar Enginn gerði það sem Allir hefðu geta gert.

Ringelmann áhrifin

Árið 1913 setti maður að nafni Max Ringelmann fram áhugaverða kenningu í framhaldi af einfaldri tilraun. Hann bað tvo menn að togast á með reipi og mældi krafta þeirra. Hann bað svo sömu menn að togast á með sinn hvorn hópinn með sér. Hann tók eftir því að þegar fólk togaði með hópi lögðu þeir sig minna fram en þegar þeir toguðu á eigin spýtur. Rannsóknin benti til þess að framleiðni einstaklingsins minnki þegar hópastærð eykst. Það sé auðveldara að fela sig í fjöldanum. Þetta gerist ekki bara í reipitogi heldur einnig í hópíþróttum og á vinnustöðum.

Nú er tími til að stíga upp

Þó framtíðarhorfur á Íslandi séu góðar eru blikur á lofti til skamms tíma. Spáð er auknu atvinnuleysi og nokkur óvissa ríkir í ferðaiðnaðinum. Á sama tíma eru að eiga sér stað miklar breytingar á vinnumarkaðnum vegna sjálfvirknivæðingar og gervigreindar. Störf eru að breytast og færa þarf verkefni á milli fólks. Atvinnulífið kallar eftir sveigjanleika og vill fá fólk til starfa sem hefur ,,mjúka færni“. Sköpun, tilfinningagreind, gagnrýnin hugsun, leiðtogahæfni og hæfni í mannlegum samskiptum er færni sem kallað er eftir á nýju ári.
Í aðstæðum sem þessum eru alltaf einhverjir sem verða fyrir ,,Skjaldböku-áhrifunum“. Draga sig inn í skelina, þora ekki að koma með hugmyndir og láta sem minnst fara fyrir sér í þeirri von að lifa af.

Við þessar aðstæður eru líka aðilar sem eru tilbúnir að stíga upp og taka meiri ábyrgð, draga vagninn, koma með nýjar hugmyndir og nýjar nálganir.

Þú getur verið þessi aðili.