Örugg samskipti ungs fólks inn á heimilum

Þegar sonur minn var á unglingsaldri stóð ég oft frammi fyrir því að þurfa að svara fyrir hvers vegna hann mætti ekki þetta og hitt og hvers vegna hin og þessi regla væri til staðar á heimilinu.“ Já en mamma AF HVERJU?” spurði hann. Stundum vissi ég hreinlega ekki svarið og sagði bara: “Af því að ég segi það” eða “Af því bara”. Mögulega voru einhverjar reglur sem hreinlega fylgdu mér úr mínu uppeldi og ég setti á umhugsunarlaust en nú þegar ég les mér til um sálfræðilegt öryggi er ég þakklát fyrir að vita að hann hafi upplifað að umhverfi hans var öruggt til að spyrja og skora á aðstæður.

Amy Edmondson, prófessor við Harward hefur skilgreint sálfræðilegt öryggi (e. Psycological safety) sem “trú á að manni sé ekki refsað eða gert lítið úr manni fyrir að koma með hugmyndir, spyrja spurninga eða benda á mistök og að það sé óhætt að taka persónulega áhættu.” (2019) Þó svo að upphaflega hafi þetta hugtak verið tengt við fyrirtæki og samvinnu í teymum þá á hugtakið ekki síður við inni á heimilunum og í samskiptum innan fjölskyldna.

Samkvæmt bók Timothy Clark “The 4 Stages of Psycological Safety” eru stig sálfræðilegs öryggis fjögur:

  1. Öryggi um að tilheyra. Ég upplifi að ég tilheyri hópnum/fjölskyldunni. (Inclusion safety)
  2. Það er í lagi að gera mistök og tilraunir, prófa nýja hluti og biðja um hjálp (Learner safety)
  3. Öryggi um að það verði ekki gert lítið úr hugmyndum okkar og styrkleikum (Contributor safety)
  4. Þorum að spyrja “Af hverju” og skora á núverandi eða óbreytt ástand (Challenger safety)

Á nýlegri vinnustofu sem við hjá Dale Carnegie héldum, með foreldrum barna á aldrinum 10-15 ára, ræddum við hvernig við tryggjum að andrúmsloftið og menningin á heimilinu sé þannig að börnum og ungmennum líði þannig að það sé í lagi að spyrja um hvað sem er, koma með athugasemdir og segja frá hvernig þeim líður. Ræða það sem þeim liggur á hjarta án þess að eiga á hættu að vera dæmd, ávítt eða hunsuð. Það sem þarf að ræða við ungt fólk er m.a um tilfinningar, kvíða, góð gildi, framtíðina, mörk, kynlíf, mistök, einmannaleika og fleira og fleira.

En hvernig metum við stöðuna á okkar heimilum?

Við gætum spurt fjölskyldumeðlimi hvort þau upplifi að þeim sé nuddað upp úr því ef þau gera mistök eða hvort þeim finnist auðvelt að ræða erfiða hluti? Er auðvelt að biðja um hjálp eða er gert grín að manni? Er hlustað á ólíkar skoðanir og þær virtar? Fá allir að vera þeir sjálfir og fá styrkleikarnir að njóta sín?

Þegar maður skoðar svo hvað það er sem skapar þetta öryggi í samskiptum þá eru það grunn-samskiptareglur sem við kunnum öll og vitum flest að skila okkur góðum árangri í samskiptum. Atriði eins og að gagnrýna ekki á neikvæðan hátt, fordæma og kvarta, vera góður hlustandi, sýna hugmyndum og óskum annarra skilning og að segja ekki við fólk að þeirra skoðun sé röng eru allt leiðir til að byggja traust á milli fjölskyldumeðlima og þannig opna fyrir opin og heiðarleg samskipti.

Það er margt sem ungt fólk tekst á við í dag sem var kannski ekki raunveruleiki þegar við ólumst upp og þjálfarar á námskeiðunum okkar tala um að þeir hafi ekki áður heyrt unga fólkið tala svona mikið um að þau séu vinalaus og einmanna. Það er hræðileg þróun. Tímamót eins og að færast úr unglingastigi yfir í menntaskóla, sem hafa nýst mörgum til að stækka vinahópinn eða eignast nýja vini hafa runnið hjá og þau misst af tækifærinu til að skapa tengsl við nýja vini. Samkvæmt Josapine Perry sem skrifaði bókina “Ten pillars of success” þá er einmannaleiki jafn skaðlegur og að reykja 15 sígarettur á dag! Við myndum ALDREI sitja aðgerðarlaus ef við vissum af barninu okkar inni í herbergi reykjandi 15 sígarettur á hverjum degi. En mögulega erum við grandalaus og úrræðalaus gangvart skaðsemi einmannaleika.

Áskorun! Berum hag unga fólksins fyrir brjósti og eigum þessi samskipti. Tölum um það sem þarf að tala um, spyrjum, hlustum og verum til staðar án þess að dæma. Það bendir allt til þess að afleiðingar undanfarinna mánaða hafi komið verst niður á ungu fólki og við berum ábyrgð á því að skapa þannig andrúmsloft inni á heimilunum að þau tjái sig um líðan sína.