Gott boozt á réttum tíma

Eigendur Omnom þeir Óskar Þórðarson og Kjartan Gíslason tóku þá ákvörðun síðasta haust að þjálfa alla starfsmenn hjá Dale Carnegie.

Síðustu mánuðir hafa verið ævintýralegir hjá Omnom. Síðasta haust var sölumet slegið í hverjum mánuði þar til markaðir hrundu í vor vegna Covid og stórum hluta starfsmanna var sagt upp. Í júlí fór svo í loftið sjónvarpsþáttur á Netflix með Zac Efron þar sem hann heimsótti Omnom með þeim afleiðingum að öll framleiðsla er komin á fullt og allir endurráðnir.

Við hjá Dale Carnegie tókum hús á Omnom og spurðum þau útí ævintýralegt árið 2020.

Hvernig hafið þið tekist á við sveiflurnar síðasta árið?

Kjartan: Þegar maður er að byggja upp sprotafyrirtæki eins og Omnom eru alltaf miklar sveiflur í rekstrinum. Svo að mörgu leiti hefur síðasta ár ekki verið svo frábrugðið, þó hvorttveggja hæðir og lægðir hafi verið ýktari en oftast áður.

Óskar: Þegar allt samfélagið og heimurinn allur fór í hægagang vegna faraldursins þá er gott að geta brugðist hratt og örugglega við. Maður býr af reynslunni við að hafa farið í gegnum hrunið, nú fann maður og vissi að við vorum öll að fara í gegnum það sama. Með því að eiga samskipti við önnur fyrirtæki sem við erum í samstarfi við þá fann maður að við vorum öll á sama báti. Að halda öllum samskiptaleiðum opnum, þora að taka erfið samtöl og gera það af einlægni hjálpar mikið til við að halda rekstrinum gangandi. Sérstaklega þegar óvissan er mikil eins og í ár.

Hvað gerðist í júlí þegar Down to Earth fór í loftið?

Kjartan: Zac Efron og tökulið kom í heimsókn haustið 2018 og við vorum búin að afskrifa að eitthvað yrði úr sýningu á þessu þegar þættirnir fóru loks í sýningu núna í júlí.

Óskar: Þetta var gott boozt á réttum tíma. Fyrir nokkrum mánuðum gerðum við vörurna okkar aðgengilegri til sölu á Bandaríkjamarkaða og það sem gerist eftir að þættirnir fóru í gang var að inná síðuna okkar hrúguðust inn pantanir. Þegar maður vaknaði á morgnanna var glaðningur sem beið manns í pósthólfinu. Þetta dugði til þess að við gátum endurráðið starfsfólk og sett framleiðsluna á fullt að nýju. Núna þurfum við að finna leiðir til að nýta tækifærið sem best.

Hverjar hafa mestu áskoranirnar verið síðustu mánuði?

Óskar: Það er eðlilegur og órjúfanlegur hluti af því að reka fyrirtæki og hafa fólk í vinnu að finna fyrir streitu. Þó streituvaldarnir séu ólíkir. Þegar erfiðleikar eru í rekstrinum þá upplifir maður sem stjórnandi andvaka nætur þar sem maður veltir fyrir sér hvernig hægt sé að láta reikningsdæmið ganga upp. Hvort hægt sé að borga laun til starfsmanna sem manni finnst maður bera ábyrgð á.

Kjartan: Þegar eftirspurnin rýkur upp úr öllu valdi eins og gerðist núna í sumar þá finnur maður fyrir áhyggjum af því hvort þjónustustigið standist kröfur og hvort álagið á starfsmenn sé of mikið.

Hvernig hefur Dale Carnegie þjálfunin nýst ykkur?

Óskar: Ég fór fyrst á námskeið rúmlega tvítugur, þá ungur maður á uppleið og svo aftur fyrir 5 árum síðan. Eitt af því sem við gerðum þegar við stofnuðum Omnom var að vinna framtíðarsýn á svipaðan hátt og gert á DC námskeiðinu. Það er alveg heilmikið sem hefur orðið að veruleika af því sem við settum niður 2013 þegar Omnom fór af stað.

Ég vissi því hvað DC stóð fyrir þegar við ákváðum að þjálfa alla starfsmenn Omnom. Síðasta haust fór ég í fyrsta sinn í gegnum Leiðtogaþjálfun fyrir stjórnendur, sem er ólíkt hinu hefðbundna DC. Í hvert sinn hefur það minnt mig á þetta einfalda í samskiptum sem okkur hættir til að gleyma hversdags.

Kjartan: Það sem ég tók helst með mér frá DC inní vinnuna var að samvinna okkar Óskars varð enn betri. Við erum búnir að þekkjast lengi og vinnum vel saman. Þetta er stundum eins og í hjónabandi að reka saman fyrirtæki, það að fá tæki og tól til að vinna í samskiptum gerði það að verkum að við fórum að vinna enn betur saman.

Margt af því sem við gerðum á námskeiðinu var kunnuglegt þar sem Hildur, sem hefur haldið um mannauðsmálin hjá okkur, hefur verið að gera allskyns æfingar með starfmsannahópnum til að efla starfsmannaandann.

Óskar: Við sáum líka að frumkvæði jókst meðal þeirra sem fóru í gegnum þjálfunina. Það er auðvitað dýrmætt að finna að aukið sjálfstraust skila sér í öryggi í ákvörðunartöku. Þannig verður valddreifingin meiri og við getum einbeitt okkur að okkar verkefnum.

Kjartan: Við leggjum mikið uppúr því að hafa góða stemningu í fyrirtækinu og við finnum að flestir starfsmenn Omnom eru stoltir af vinnustaðnum sínum og viljugir til að sýna sveigjanleika þegar við á.

Takk fyrir spjallið og gangi ykkur vel í áframhaldandi súkkulaðiævintýrum.