Veröldinni hefur verið snúið á hvolf og nú þegar berast loksins jákvæðar fréttir er hægt að horfa fram á við og velta fyrir sér hvað gerist næst? – eða öllu heldur, hvað viljum við að gerist næst?
Í nýlegri skýrslu frá tveimur ráðgjöfum McKinsey & Company er notast við áður þekkt kreppumódel til að finna leiðina að nýju normi. Módelinu er lýst í 5 þrepum sem á ensku eru; Resolve, Resilience, Return, Reimagination og Reform.
Á Íslandi höfum við hugtök eins og ,,fyrir og eftir gos“ og er þá vísað til Vestmannaeyja. Það er ekki ólíklegt að í framtíðinni ræðum við um fyrir og eftir Covid. Gríðarlegar umbreytingar eru í kortunum og nú kemur sér vel að hafa vel menntað fólk sem býr yfir mikilli þekkingu og getur lært hratt af reynslunni. Covid er ekki fyrsta kreppa mannkynsins og nú ríður á að nýta okkur vitneskju fyrri ára og þekkingu sérfræðinga. Þannig má forðast afdrifarík mistök í uppbyggingarfasanum og mæta nýja norminu með sigurviljann að vopni.