10 venjur sem hindra árangur

Eftir því sem árin líða eignumst við dýrmæta reynslu. Samhliða verða til venjur sem eðlilega eru misgóðar. Marshall Goldsmith skrifaði metsölubókina What Got You Here – Won’t Get You There og kynnir þar 20 venjur sem hindra árangur. Dale Carnegie hefur sett saman þjálfun sem byggir á þessu efni og hér má sjá 10 venjur af þeim 20 sem hindra árangur.

  1. Of mikið keppnisskap: Þetta er algengasta hegðunarvandamálið hjá farsælu fólki. Það er fín lína á milli þess að vera með keppnisskap og að þurfa alltaf að vinna. Stundum er bara enginn að telja og þá er óþarfi að fara fram úr sér í keppnisskapi. Of mikið keppnisskap tengist annarri hegðun eins og t.d. ef við rökræðum of mikið, þá er það vegna þess að við viljum að skoðun okkar sé ríkjandi. Ef við gerum lítið úr öðru fólki þá er það okkar leið til að halda þeim niðri.
  2. Að vita alltaf betur: Það er afar erfitt fyrir reynslumikið fólk að hlusta á aðra segja þeim eitthvað sem það veit nú þegar án þess að gefa það til kynna að „ég vissi það nú þegar“ eða „ég veit um betri leið“. Þau sem þurfa sífellt  að bæta við upplýsingum hafa tilhneigingu til að segja hluti eins og „frábær hugmynd“ og gera svo lítið úr hugmyndinni með því að segja  „en“ eða „samt“ og pæla ekkert í því hvort athugasemdin bæti einhverju við. Leyfum bara öðrum að eiga hugmyndina og gerum aðra að sigurvegurum.
  3. Að fella dóm: Fólk sem hefur náð árangri hefur tilhneigingu til að kveða upp dóm jafnvel þegar þau biðja fólk sérstaklega að koma skoðunum sínum á framfæri.  Með því að taka undir eina hugmynd og hrósa einni manneskju og segja ekkert við aðra þá finnst fólki það gagnrýnt. Þetta fælir fólki frá og setur það í vörn og það hikar við að leggja sitt af mörkum.
  4. Að koma með niðurbrjótandi athugasemdir: Þetta geta verið beittar eða niðurlægjandi hæðnisathugasemdir sem geta verið hugsunarlaus skot á fundi eða athugasemdir um hvernig einhver lítur út. Jafnvel athugasemdir eins og „flottur jakki“, sagt með glotti, getur valdið sársauka. Þessi venja er líklegust til að vera okkur sjálfum dulin en aðrir sjá þetta skýrt og er því svokallað blind spot.
  5. Að byrja á að segja, „nei“, „en“ eða „samt“: Þegar við notum eitthvað af þessum orðum, sama hversu vinalegur tónninn er, og hvað sem við segjum til að virða tilfinningar viðmælandans þá eru skilaboðin frá okkur:  „Þú hefur rangt fyrir þér“.  Í framhaldinu er erfitt að eiga uppbyggilegt og heilbrigt samtal.
  6. Að segja öllum hversu klár við erum: Þetta er svipað því að þurfa alltaf að vinna. Þetta er þörfin fyrir að vera klárasta manneskjan á staðnum.  Við gerum þetta með því að kinka óþolinmóð kolli á meðan aðrir tala eða sýnum með öðrum hætti að við erum bara að bíða eftir að komast sjálf að.  Við gerum þetta svo á meira augljósan hátt þegar við segjum „ég vissi þetta“, eða „ég var búin að heyra þetta“ eða „þetta eru nú ekki nýjar upplýsingar“. Svona hegðun er líkleg til að móðga aðra og er fráhrindandi fyrir þann sem verður fyrir því.
  7. Að tala þegar við erum reið: Þegar við erum reið höfum við sjaldnast stjórn á hegðun okkar sem gerir það erfitt að hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Reiði er sjaldnast einhverjum öðrum að kenna og í flestum tilfellum má rekja ástæðu reiðinnar til okkar sjálfra. Það versta við reiði er að maður getur skapað sér þá ímynd að vera með óstöðuga skapgerð.
  8. Neikvæðni eða „nei þetta virkar ekki“: Þegar okkur er ómögulegt að segja eitthvað jákvætt eða uppbyggilegt um hugmyndir annarra. Þetta er stuðar aðra því það samsvarar þörfinni á að hafa neikvæða skoðun á einhverju sem þú varst ekkert beðin/n um að hafa skoðun á. Þetta fælir fólk frá okkur, því þótt við ætlum okkur að vera hjálpleg þá er þetta er hrein og ómenguð neikvæðni.
  9. Halda að sér upplýsingum: Það að halda vísvitandi að sér upplýsingum er andstaða þess að hafa alltaf skoðun á öllu. Samt er tilgangurinn sá sami- að öðlast vald. Hvort sem þetta á við um að gleyma að boða einhvern á fund, vera of upptekin/n til að svara fyrirspurnum eða að gefa þér tíma til að leiðbeina með verkefni sem þú fólst einhverjum þá skilar það ekki árangri að halda að þér upplýsingum. Við gætum haldið að það gefi okkur eitthvað forskot en í raun erum við að fóðra tortryggni, hræðslu og efasemdir.
  10. Að klikka á því að hrósa: Þegar við veitum fólki ekki það hrós sem það á skilið fyrir sitt innlegg í teymisvinnu þá erum við ekki bara að koma illa fram við fólkið heldur verður það af tilfinningalegu upplifuninni sem fylgir því að ná árangri. Þeim líður eins og það skipti ekki mál, það  sé gleymt og að því hafi verið ýtt til hliðar.