5 ráð til að setja þér markmið

5 ráð til að setja þér markmið

Hvernig viljum við að þetta ár verði? Hvaða markmiðum viljum við ná? Hvað myndi gera árið skemmtilegt og árangursríkt?
Eitt af því sem við hjá Dale Carnegie gerum allt árið um kring er að hjálpa fólki að ná markmiðum sínum.

Hér eru fimm atriði sem gott er að hafa í huga við markmiðasetningu:

  1. Hugsaðu um gildin þín. Það er mikilvægt að markmiðin séu í takt við gildin þín eða a.m.k. fari ekki gegn þeim. Gefðu þér nokkrar mínútur í að hugleiða gildin áður en þú leggur af stað. Hér getur þú séð gagnlegar upplýsingar um gildi.
  2. Jafnvægi. Það er freistandi að setja sér bara eitt metnaðarfullt markmið á næsta ári og ná því. En þá gæti skapast hætta á að við vanrækjum önnur svið. Á dale.is höfum við útbúið sjálfsmat þar sem þú leggur mat á öll helstu árangurssvið þín – skoðaðu hér.
  3. Notaðu SMART formúluna (Sértækt, Mælanlegt, Aðlaðandi, Raunhæft og Tímasett). Hafðu markmiðið sértækt. Ef þú ætlar t.d. að hreyfa þig ákveddu þig þá hvernig. Til að meta árangur þurfa markmið að vera mælanleg sb. mínútur á dag eða ákveðin vegalengd osfrv. Við skorum líka á fólk að setja sér aðlaðandi markmið. Markmið sem þú vilt ná en ert ekki að gera fyrir einhvern annan. Við þurfum svo líka að vera raunhæf. Það væri vissulega gaman að komast á Ólympíuleikana í sumar en kannski er raunhæfara fyrir okkur flest að setja markið aðeins neðar. Að lokum þurfum við svo að ákveða tímamörkin og ákveða dagsetningu. Við mælum alltaf með að skrifa markmiðin niður, sem eykur líkurnar á að við náum þeim um 40%, og stundum er gott að segja öðrum frá þeim. Það eykur skuldbindingu okkar.
  4. Hugaðu að tímarammanum. Mörgum okkar hættir til að hugsa stutt fram í tímann og oft setjum við okkur markmið í upphafi árs sem tengjast janúar eða febrúar. Við ættum að hafa hæfilega blöndu af skammtíma- og langtímamarkmiðum. Að hugsa nokkur ár fram í tímann hjálpar okkur að sjá hvaða skammtímamarkmið styðja við framtíðarsýnina okkar.
  5. Verðlaunum okkur. Við þurfum hvattningu til að ná markmiðum okkar. Um leið og markmið geta aukið metnað okkar og lífsfyllingu eiga þau líka að vera skemmtileg. Það er enginn kvóti á sjálfshvatningu og verðlaunum. Fögnum hverri framför og höldum upp á áfangasigra. Njótum ferðalagsins.