Margir þekkja tilfinninguna að byrja aftur í ræktinni eftir langt hlé og allar harðsperrurnar sem því fylgja. Það er allajafna svolítið átak að byrja aftur og sumir þurfa fleiri en eitt samtal við sjálfa/n sig til að fara af stað. Aðrir taka ekki samtalið og heltast úr heilsulestinni.
Síðustu tvö ár hafa skapað áður óþekktar aðstæður sem hafa haft áhrif á samskipti fólks. Margir hafa þurft að einangra sig og fært samskipti sín á rafrænt form í meira mæli. Sjálfur á ég dóttur á lokaári í framhaldsskóla sem hefur farið á tvö skólaböll, ekki vegna þess að hún sé andfélagsleg, heldur vegna þess að það hafa ekki verið fleiri böll í boði frá því að hún byrjaði í framhaldskóla árið 2019.
Á hverju ári koma hundruð ungmenna á námskeið Dale Carnegie og þar heyrum við um sigra þeirra og áskoranir. Við skynjum vel vonbrigði þeirra sem hafa ekki náð að skapa ný tengsl og upplifa einangrun. Við höfum í gegnum tíðina alltaf fengið nokkra þátttakendur sem ekki hafa haft hugrekki til að hringja og panta sér pizzu þrátt fyrir að vera að nálgast tvítugt. Þessum þátttakendum fer fjölgandi enda færast samskiptin meira og meira yfir á rafrænt form. Afleiðingin af þessari þróun blasti svo við mér þegar ég heimsótti skyndibitastað um daginn þar sem áletrað var stórum stöfum ,,Þú þarft ekki að tala!”. Fyrirtækin koma auðvitað til móts við viðskiptavini sína.
Á hverju ári höldum við upp á Dag íslenskrar tungu til að minna okkur á mikilvægi tungumálsins. Tungumálið er lykillinn að farsælum samskiptum og grunnurinn að mynda tengsl við aðra. Tæknin gefur okkur svo möguleika á að eiga í öðrum samskiptum t.d. með myndum, video eða Emoji táknum. Umræða síðustu daga um ,,Like” sýnir okkur að fólk leggur ekki sama skilning í hvað það þýðir. Írska leikskáldið George Bernand Shaw sagði að ,,mesta blekkingin við samtalið væri að það hafi yfirleitt átt sér stað”. Flestir hafa trúlega lent í því að hafa talið sig koma skilaboðum eða skoðun sinni á framfæri en í raun átt samtalið fyrst og fremst við sjálfan sig og í besta falli gefið eitthvað í skyn.
Nú þegar við erum stödd í ,,Covid – season 7” eða upplifum okkur í kvikmyndinni Groundhog Day skulum við muna að ánægja sprettur af áreynslu. Sem foreldrar þurfum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stuðla að samveru og innihaldsríkum samskiptum. Við eigum að hvetja börnin okkar til að fara út fyrir þægindahringinn sinn og skapa ný tengsl. Við eigum að undirbúa þau undir að það reyni á og geti verið óþægilegt en samskiptavöðvinn er eins og aðrir vöðvar, ef við reynum á hann, vex hann og dafnar. Tökum samtalið!