Skapaðu sálfræðilegt öryggi

skapaðu sálfræðilegt öryggi

Nýlega horfði ég á fyrirlestur á ted.com með Dr. Amy Edmondson sem er prófessor við Harvard og sem fyrst kynnti til sögunnar mikilvægi þess að geta skapað umhverfi sem fólki líður öruggu í að viðra hugmyndir, skoðanir eða koma með athugasemdir. (Psychological safety) Hún biður m.a áheyrendur að ímynda sér aðstæður þar sem hjúkrunarfræðingur sér fyrirskipun um óvenjulega lyfjagjöf í skýrslu sjúklings en hikar við að hringja í lækninn sem gaf fyrirskipunina minnug þess hvernig hann brást við síðast þegar hún gerði athugasemd. Önnur sviðsmynd er af nýútskrifuðum flugmanni sem situr við hlið reynda flugstjórans og verður vitni að yfirsýn en ákveður að segja ekkert.

Ég varð mjög hugsi eftir að horfa á þennan fyrirlestur enda lengi verið áhugasöm um mannlega hegðun og oft orðið vitni að stórkostlegum breytingum sem verða þegar fólk rýnir í hvaða árangri það getur skilað ef það vandar sig í samskiptum. Gamla máltækið „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ á sannarlega við nú á tímum endalausra breytinga og mikilvægt að skapa ekki aðstæður þar sem fólk dregur í undir skelina.

Afleiðingarnar í tilfelli hjúkrunarfræðingsins og flugmannsins gætu sannarlega verið mjög alvarlegar. Rannsóknir sýna að afleiðingar árásar á sálfræðilegt öryggi okkar geta haft alvarlegri afleiðingar heldur en líkamsárás. (Eisenberger, 2012)

Því hefur verið haldið fram að fólk hætti ekki hjá fyrirtækjum heldur sínum næsta yfirmanni og að það sem hefur hve mest áhrif á virkni starfsfólks sé samband þeirra við sinn næsta yfirmann. Ríkir traust á milli? Eitt af því sem hefur hvað mest áhrif á að traust ríki í samböndum er að þú upplifir sálfræðilegt öryggi. Það þýðir að öðrum líður vel með að taka mannlega áhættu(interpersonal risk) því að þeir eru ekki hræddir um að vera dæmdir eða að komið sé fram við þá eins og þeir séu heimskir. Dæmi um mannlega áhættu gæti verið að spyrja á fundi „hvert er markmið þessa verkefnis?“ Spurningin gæti hljómað ens og þú sért ekki með á nótunum og því gæti verið auðveldara að sitja bara fundinn án þess að fá svarið og þannig koma í veg fyrir að líta út fyrir að vera fáfróð/ur. Sálrænt öryggi gegnir lykilhlutverki í að auka nýsköpun og sköpunargleði.

Hvað geta stjórnendur gert til að skapa þestta sálfræðilega öryggi í sínum teymum? Samskiptareglur Dale Carnegie úr bókinni Vinsældir og áhrif eru leiðarvísir stjórnenda að því að byggja upp traust í samskiptum. Þar er okkur bent á að við gætum byrjað á því að venja okkur af því að gagnrýna á neikvæðan hátt og viðurkenna okkar eigin mistök fljótt og vel. Það gefur þau skilaboð að það er í lagi að vera ekki fullkominn og það er í lagi að gera mistök. Einnig er gott að stjórnendur spyrji spurninga í stað þess að gefa skipanir, það eykur sálfræðilegt öryggi. Leyfðu líka fólki að halda virðingu sinni ef það gerir mistök og hjálpaðu fólki upp úr mistökunum í stað þess að gera mikið úr þeim.

Hér eru nokkrar spurningar sem stjórnendur ættu að velta fyrir sér til að meta sálfræðilegt öryggi í sínum hópi:

  1. Getur fólk reitt sig á aðra til þess að það nái að klára verkefni innan tímaramma?
  2. Einkennast flest sambönd samstarfsfólks af trausti?
  3. Er fólk hvatt til að taka mannlega áhættu; er í lagi að gera tilraunir og læra af mistökum?
  4. Getum við treyst því að á mínum vinnustað muni enginn gera lítið úr okkur eða refsa okkur fyrir að viðurkenna mistök, spyrja spurninga eða koma með hugmyndir?
  5. Skapa stjórnendur hjá okkur umhverfi án aðgreiningar og sýna þeir einlægan áhuga á árangri og velferð starfsfólks?

Vonandi getur þú svarað flestum spurninganna játandi og ég hvet þig til að spyrja þig líka hvort þú eigir meira inni til að auka sáfræðilegt öryggi á þínum vinnustað?