Því er haldið fram að stríð þjappi þjóð saman og hugmyndin um sameiginlegan óvin styrki leiðtogann. Í 20 mánuði hafa stjórnendur og starfsmenn verið í stríði við ósýnilegan óvin sem hefur skapað áður óþekkt álag á starfsfólk. Samkvæmt nýrri rannsókn McKinsey hafa aldrei fleiri starfsmenn velt fyrir sér hvers vegna þeir vinna hjá núverandi vinnuveitanda og hvort þeir séu metnir að verðleikum. Svo mánuðum skiptir hafa starfsmenn fylgt sé að baki stjórnendum og gert það sem gera þarf. Eftir því sem tíminn líður og stríðið dregst á langinn koma áhrifin fram og ekki síst hvernig einstaklingar koma mismunandi undan álaginu. Starfsfólk kallar eftir félagslegri samheldni, tilgangi og trausti. Það vill sjá að framlag þeirra sé metið, fá tækifæri til að mennta sig og vaxa og að framtíðarsýn þeirra falli að markmiðum fyrirtækisins.
Hugtakið ,,Employee experience (EX)” er notað um samband fyrirtækis við starfsfólk eða öllu heldur samband stjórnenda við fólkið sitt. Samkvæmt könnunum er starfsfólk með jákvæða upplifun 16 sinnum virkara en annað og er 8 sinnum ólíklegra að hætta.
Stjórnendur í dag hafa nú tækifæri að nýta það traust sem stríðið hefur fært þeim til að beina starfsfólki í átt að mikilvægum markmiðum. Það verður ekki gert með því að leiða starfsfólkið sem hóp heldur með því að setja sig inn í aðstæður hvers og eins og varða leiðina með viðkomandi fram á veginn. Stjórnendur hugsa eðlilega sífellt um hagsmuni hluthafa og upplifun viðskiptavina. Á næstu mánuðum þarf að fara enn meiri tími í að huga að upplifun starfsmanna til að auka virkni. ,,We are human beings, not human doings” eins og Dalai Lama sagði. Við þurfum öll að snúa mannlegu hliðinni upp.